Ösp Eldjárn
Söngkennari
Ösp Eldjárn útskrifaðist með B.Ed gráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands 2010 og var á sama tíma í söngnámi við tónlistarskóla FÍH, þaðan sem hún lauk miðprófi í jazzsöng. Hún stofnaði einnig bluegrass/americana hljómsveitina Brother Grass ásamt Hildi Halldórsdóttur, Söndru Dögg Þorsteinsdóttur, Soffíu Björgu og Erni Eldjárn og gáfu þau út tvær hljómplötur auk þess að halda fjölda tónleika um allt land.
Haustið 2011 fluttist hún til London og hóf nám við Institute of Contemporary Music Performance og útskrifaðist þaðan með B.A gráðu í Creative Musicianship. Í London starfaði hún sem söngkona, hélt tónlistarnámskeið fyrir ungabörn og foreldra, var meðlimur í jazzsveitinni Good as Gold, raf/folktronica hljómsveitinni Hrím og í kórnum London Contemporary Voices en með honum vann hún með tónlistarfólki á borð við Imogen Heap, Manu Delago, Guy Sigsworth og Nitin Sawhney.
Árið 2017 gaf hún út sína fyrstu sóló plötu, Tales From a Poplar Tree, sem var tilnefnd til íslensku tónlistarverðlaunanna. Sama ár flutti Ösp svo aftur til Íslands og kenndi um tíma söng við Tónlistarskólann á Tröllaskaga. Snemma árs 2021 stofnaði hún ásamt systkinum sínum, þeim Erni Eldjárn og Björk Eldjárn hljómsveitina Blood Harmony. Þau hafa gefið út nokkur lög á streymisveitum og sumarið 2023 héldu þau í þriggja vikna tónleikaferðalag um Bretland þar sem þau héldu fjölda tónleika og komu fram á nokkrum af virtustu tónlistarhátíðum Bretlands, en þær eru Cambridge Folk Festival, Belladrum Tartan Heart Festival og The Hebridean Celtic Festival.